Vetrarsólstöður

Blessuð séu þið öll sem veljið að hafa ljósið að leiðarljósi í lífi ykkar. Í dag, á vetrarsólstöðum, er sá tími sem minnir okkur einna helst á hvað ljósið og birtan er nauðsynleg sálum okkar. Frá deginum í dag fer daginn aftur að lengja, ljósið að aukast. Notaðu tækifærið og hlúðu að þínu innra ljósi, ljósinu sem býr í hjarta þínu. Sjáðu fyrir þér hvernig ljósið eyðir myrkri sálar þinnar um leið og það eykst með hverjum andardrætti. Sjáðu fyrir þér ljósið dreifast rólega um líkamann. Hver fruma líkama þíns býr yfir ljósinu og um leið og þú veitir því athygli vex það. Sjáðu fyrir þér hvernig þú getur verið ljósberi með því að hlúa að þér og tengingu þinni við hið mesta og skærast ljós, kærleikann sjálfan, Guð.

Jesús Kristur var og er ljós heimsins. Hann minnti okkur á að við erum einnig ljós heimsins. Við erum öll börn Guðs, elskuð og umvafin kærleika á hverjum degi. Leyfðu þér að finna elsku Guðs í hjarta þínu. Leyfðu öðrum að finna elsku Guðs með þinni hjálp þegar þú segir við aðra „Ég elska þig“. Sýndu öðrum í verki og gjörðum hversu mikið þú elskar meðbræður þína og systur. Ef þér er ekki tamt að nota orð til tjáningar, geturðu sýnt það með góðverki, gjöfum eða faðmlagi.

Jólin, hátíð ljóss og friðar, eru til að minna okkur á hlutverk okkar á jörðu;

að elska og vera elskuð,

að sýna sjálfum sér og öðrum ást og kærleika,

að leyfa ljósinu að vaxa í heimi hér,

því þannig verður til himnaríki á jörðu.