Bækur

Í gegnum tíðina hef ég lesið ógrynni af bókum og hefur aðal áhugi minn verið á andlegum bókum. Ég hef einnig skrifað níu bækur sjálf og á þessari síðu birti ég upplýsingar um bæði bækur sem ég mæli með og ég hef skrifað.

Skyndibiti fyrir sálina

Þetta er bókin sem breytti hugsanagangi mínum. Ég las bókina Skyndibiti fyrir sálina þegar ég lá á fæðingardeildinni eftir að hafa eignast eldri dóttur mína, þriðja barnið. Ég var ákveðin að nýta fæðingarorlofið í að finna betur út hvað ég vildi starfa við og gera með menntun mína.

Bókin er um mátt hugans og þar er að finna góðar aðferðir til að ná betri tökum á lífinu. Eftir lestur bókarinnar fann ég betur út hver ég er og hvað ég vildi gera við líf mitt og tilveru.

Ég notaði fæðingarorlofið m.a. í að hanna tónlistarnámskeið fyrir börn og foreldra þeirra og bauð í fyrsta skipti upp á námskeiðið Með á nótunum í bílskúrnum heima hjá mér haustið 2005. Það haust hlaut ég einnig kennaramenntun í Stott pilates og í kjölfarið bauð ég upp á pílatesnámskeið í bílskúrnum heima hjá mér. Síðan þá hef ég verið sjálfstætt starfandi og boðið upp á ýmis námskeið sem miða öll að því að hvetja til gæðastunda, jákvæðrar hugsunar og byggja upp jákvæða sjálfsmynd.

Vígslan

Eitt sinn þegar ég fór til miðils fékk ég þau skilaboð að ég ætti að lesa mér meira til um andleg málefni og mælti miðillinn með bókinni Vígslan eftir Elisabeth Haich. Ég keypti bókina strax og hóf lestur. Síðan hef ég gluggað í visku hennar reglulega enda fróðleikur sem lætur mann ósnortinn.

Bókin fjallar um frásögn konu í gegnum tvö líf, annars vegar í Egyptaland til forna og hins vega í Evrópu á tuttugustu öld.

Bókina er hægt að nálgast á bókasöfnum og oft er hún fáanleg í búðunum Gjafir jarðar (Laugarvegi) og Betra líf (Kringlunni).

Kristur í oss

Ég fékk bókina Kristur í oss gefins árið 2015 en bókina er ekki hægt að kaupa heldur gengur hún manna á milli að gjöf. Bókina les ég reglulega, einn kafla í senn og velti fyrir mér boðskap hennar.

Bókin var skrifuð árið 1907 í Englandi og var fyrst gefin út í Reykjavík árið 1941. Hún flytur manni stórmerkilega miðlun frá ókunnum höfundi.

Bókin skiptist í þrjá þætti: 1. þáttur Kristur í oss, 2. þáttur Hugur og sál, samband þeirra við líkamann, 3. þáttur Guðlegt mannkyn.

Hægt er að hlusta á upplestur af bókinni á Hljóðbókasafni Íslands og áhugasamir geta fengið gefins eintak af bókinni hjá mér með því að senda mér tölvupóst.

Hugarfrelsi – Aðferðir til að efla börn og unglinga

Bókin Hugarfrelsi – Aðferðir til að efla börn og unglinga er handbók fyrir uppalendur til að hjálpa börnum og unglingum að verða besta útgáfan af sjálfum sér. Bókina sömdum við Unnur Arna Jónsdóttir vinkona mín og meðeigandi Hugarfrelsis.

Í bókinni er lögð áhersla á góða og djúpa öndun, slökun, hugleiðslu og sjálfsstyrkingu en allt eru þetta aðferðir sem hafa reynst börnum og unglingum vel. Með aðferðunum verður einbeiting þeirra meiri, vellíðan eykst, jákvæð hugsun verður oftar fyrir valinu og sjálfsmyndin eflist. Í hverjum kafla bókarinnar er fróðleikur fyrir uppalendur, verkefni fyrir börn og unglinga og hugleiðslusögur sem leiða inn í ævintýraheim þar sem ímyndunaraflið er virkjað.

Bókin kom út hjá NB-forlagi árið 2015 og önnur prentun kom út árið 2017.

Hugarfrelsi – kennsluleiðbeiningar

Bókin Hugarfrelsi – kennsluleiðbeiningar var fyrsta bókin sem við Unnur Arna Jónsdóttir vinkona mín sömdum saman. Bókin er ætluð til að vinna með nemendum á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi. Við gáfum fyrstu prentun út sjálfar árið 2014 en endurútgáfan kom út hjá NB-forlagi árið 2016.

Í bókinni er farið yfir einfaldar aðferðir í sjálfsstyrkingu, öndun, jóga, slökun og hugleiðslu en aðferðirnar miða allar að því að efla einbeitingu barna og ungmenna, bæta sjálfsmynd, auka félagslega færni og draga úr kvíða. Með kennsluleiðbeiningunum fá kennarar fleiri tól og tæki í hendurnar til að hjálpa börnum og ungmennum að takast á við öll þau krefjandi verkefni sem upp koma.

Siggi og Sigrún slaka á

Hugmyndin að bókinni Siggi og Sigrún slaka á kom til mín í hugleiðslu haustið 2015. Þá sá ég fyrir mér strák slaka á í ólíkum aðstæðum og mér datt strax í hug að þetta gæti verið Siggi sem væri að slaka á en pabbi minn heitir Sigurður og er kallaður Siggi. Þegar ég nefndi hugmyndina við bókaútgefandann spurði hann mig hvort stelpur ættu ekki líka að slaka á og þá bætti ég Sigrúnu við en mamma mín heitir Sigrún. Bókin kom síðan út hjá NB-forlagi árið 2016 en sonur minn, Kári Þór Arnarsson myndskreytti bókina.

Siggi og Sigrún slaka á er ætluð leikskólabörnum en með hjálp Sigga og Sigrúnar geta börn lært að slaka vel á líkamanum og róa hugann á einfaldan hátt. Myndirnar og textinn í bókinni auðvelda börnum að komast í rétt hugarástand til að slaka á sem er gott veganesti fyrir framtíðina. Bókin er upplögð fyrir foreldra og aðra þá sem annast uppeldi barna og vilja hjálpa börnum að ná tökum á slökun og öðlast hugarró.

Siggi og Sigrún hugleiða

Fljótlega eftir að hugmyndin af sögunni af Sigga og Sigrúnu slaka á kom til mín sömdum við Unnur Arna Jónsdóttir hjá Hugarfrelsi aðra bók þar sem Siggi og Sigrún hugleiðla. Bókin var hún gefin út af NB-forlagi árið 2017.

Siggi og Sigrún hugleiða er ætluð leikskólabörnum en með hjálp Sigga og Sigrúnar geta börn lært að hugleiða með því að hlusta á skemmtilegar hugleiðslusögur. Hugleiðslusögurnar eru myndrænar og hjálpa börnum að efla ímyndunaraflið, sköpunargáfu og einbeitingu. Bókin er upplögð fyrir foreldra og aðra þá sem annast uppeldi barna og vilja hjálpa þeim að ná tökum á hugleiðslu, öðlast hugarró og læra að njóta augnabliksins.

Veldu

Í bókinni Veldu eftir okkur Unni Örnu Jónsdóttur hjá Hugarfrelsi er að finna einfaldar leiðir til að hjálpa þér að velja rétt á hverjum degi í alls konar aðstæðum. Efni bókarinnar getur hjálpað þér að átta þig á því hver þú ert og fyrir hvað þú stendur, hvar styrkleikar þínir liggja og hvað þú vilt almennt gera í lífinu.

Bókin var gefin út af Hugarfrelsi árið 2019.

Stafirnir

Árið 2007 kom út bókin Stafirnir eftir mig. Í þeirri bók geri ég stafakennslu að skemmtilegum leik í gegnum hreyfingar. Bókin er myndskreytt af Guðrúnu Garðarsdóttur.

Bókin Stafirnir er uppseld en hægt er að nálgast hana á bókasöfnum.

Með á nótunum 2

Þar sem fyrsta Með á nótunum bókin varð svo vinsæl ákvað ég að gera framhald af þeirri bók með enn fleiri hreyfisöngvum og þulu.

Sigríður Ásdís Jónsdóttir mágkona mín myndskreytti bókina og þeim fylgja útskýringar á hreyfingum þar sem ég studdist við tjáningarformið „Tákn með tali“. Aftast í bókinni eru nótur sem mamma mín, Sigrún Andrésdóttir skrifaði að öllum lögunum ásamt einföldum gítar- og píanóhljómum.

Með á nótunum 2 kom út 2010 og var gefin út af JPV

Með á nótunum

Árið 2006 gaf bókaforlagið JPV út fyrstu bókina eftir mig. Bókin er með 45 hreyfisöngvum og þulum. Hún heitir Með á nótunum og varð mjög vinsæl og því löngu orðin uppseld en hægt er að nálgast hana á bókasöfnum landsins.

Sigríður Ásdís Jónsdóttir mágkona mín myndskreytti bókina og þeim fylgja útskýringar á hreyfingum þar sem ég studdist við tjáningarformið „Tákn með tali“. Aftast í bókinni eru nótur sem ég og mamma mín, Sigrún Andrésdóttir skrifuðum að öllum lögunum ásamt einföldum gítar- og píanóhljómum.

Hrafnhildur Sigurðardóttir

Fyrirlestrar, námskeið, lífstílsráðgjöf, sálgæsla, heilun, dáleiðsla, tarotlestur og fyrirbænir

Hafðu samband