Heilun

Heilun kemur jafnvægi á orkuflæði líkamans og stuðlar að heilbrigði líkama og sálar.

Heilun er eitt elsta meðferðaform sem menn hafa notað til að hafa áhrif á orkuflæði líkamans. Um líkamann flæðir lífsorka sem kallast chi í Kína, prana á Indlandi og ki í Japan. Lífsorkan flæðir um orkubrautir og orkustöðvar sem staðsettar eru víðsvegar um líkamann en einnig myndar orkan orkusvið sem umlykur líkamann. Hlutverk heilara er að skynja vanvirkni eða ofvirkni í orkubrautunum og orkustöðvunum. Heilari notar oftast handayfirlagningu til að koma jafnvægi á orkukerfin en dáleiðsla, litameðferð, blómadropar, ilmolíur, kristallar, hugleiðsla og ákveðið matarræði stuðlar einnig að bættu jafnvægi orkukerfanna.

Heilari sem hefur hlotið menntun í handaryfirlögnum hefur oftast lokið námi í Reiki. Reiki skiptist oftast í þrjú stig og þeir sem ná efsta stigi mega kalla sig reikimeistara.

Hvernig fer heilun fram?

Heilari metur ástand orkunnar með handayfirlagningu sem oftast er framkæmd á liggjandi eða sitjandi einstaklingi. Unnið er með orkuna í gegnum hendur meðferðaraðilans. Sá sem þiggur heilun getur fundið fyrir hita- eða kuldastreymi og jafnvel nokkurs konar náladofa eða straumi fara um líkama sinn. Margir sjá fyrir sér heilandi liti flæða um líkamann, finna fyrir orkubreytingu, þrýstingi eða öðru slíku.

Hefðbundin tími í heilun tekur um klukkustund en búast má við árangri á nokkrum tímum með reglulegu millibili.

Hverjum hentar heilun?

Heilun hjálpar öllum þeim sem hafa opinn huga. Heilun hefur reynst vel til að öðlast jafnvægi vegna áfalla, streitu, kvíða, og ýmissa verkja og vanlíðunar hvort sem þeir eru af líkamlegum eða andlegum toga.

Heilun hentar vel samhliða almennri læknis- og/eða lyfjameðferð þar sem heilun getur flýtt fyrir bata.

Hægt er að nota heilun sem fyrirbyggjandi meðferð til að viðhalda góðu orkuflæði og heilbrigði. Margir telja að minnkað orkuflæði sé orsök ýmissa líkamsvandamála og sjúkdóma.

Hverju má búast við að lokinni heilun?

Mikilvægt er að drekka vel að vatni eftir tíma í heilun þar sem hreinsun mun eiga sér stað. Sumir finna fyrir þreytu eða orkubreytingu samdægurs og þá er gott að hvíla sig. Flestir ná að sofa betur eftir heilun en þó eru einstaklingar sem dreymir mun meira og finna jafnvel fyrir tilfinningalegu ójafnvægi. Oft eru þar á ferðinni gömul óleyst áföll sem undirvitundin er að reyna að vinna úr. Slík vinna er af hinu góða þar sem verið er að senda skilaboð um að nú sé kominn tími til að horfast í augu við gamla drauga og færa þá í ljósið. Ýmsir verkir og óþægindi geta komi upp á svæðum sem tengjast hverri orkustöð fyrir sig og getur verið gagnlegt að skoða hvaða tilfinning gæti verið að ýta undir þann verk. Áframhaldandi heilun, samtalsmeðferð og aðrar hentugar leiðir til að vinna með áföll og óuppgerðar tilfinningar koma hér að gagni.

Hrafnhildur Sigurðardóttir

Fyrirlestrar, námskeið, lífstílsráðgjöf, sálgæsla, heilun, dáleiðsla, tarotlestur og fyrirbænir

Hafðu samband