Dáleiðsla

Dáleiðsla er náttúrlegt vitundarástand sem allir finna þegar athyglinni er beint að einhverju ákveðnu án þess að umhverfið trufli mann.

Hvað er dáleiðsla?

Dáleiðsluástand er ekki ósvipað því þegar maður er milli svefns og vöku, rétt áður en maður sofnar eða er nývaknaður. Maður áttar sig ekki alveg á hvar maður er staddur því athyglin er á einhverju öðru. Dagdraumar eru einnig dæmi um slíkt sefjunarástand og einnig þegar maður er gagntekinn af að hlusta á tónlist eða horfa á kvikmynd.

Einbeiting þess sem er dáleiddur er svo mikil að umhverfisáreiti eða aðrar hugsanir ná ekki að trufla og í mörgum tilvikum veit hinn dáleiddi ekki af þeim. 

Erfitt er að lýsa dáleiðslu á almennan hátt því reynsla hvers og eins er svo misjöfn. Sumir líkja dáleiðslu við mjög djúpri slökun, öðrum finnst eins og þeir svífi um í huga sínum. 

Hvernig nýtist dáleiðsla?

Hægt er að nota dáleiðslu til að bæta almenna líðan og efla ákveðna þætti í fari fólks. Hægt er að nýta dáleiðslu til dæmis til að efla einbeitingu, taka á svefnörðugleikum og höfuðverkjum.

Dáleiðsla sem notuð er í meðferðarskyni er ekki sú sama og dávaldar beita til skemmtunar (þegar fólk er fengið til að gera ýmsar kúnstir) en hvor tveggja byggist á sama fyrirbærinu, svokölluðu sefnæmi. 

Er hægt að dáleiða alla?

Um 60% fólks dáleiðist með svolítilli fyrirhöfn en um 20% fólks kemst auðveldlega í dáleiðsluástand og er sagt að slíkt fólk sé sefnæmt. Erfitt er að dáleiða um 20% fólks. 

Þeir sem eru þjálfaðir í dáleiðslutækni geta laðað fram dáleiðsluástand en sá sem er dáleiddur verður alltaf að vilja það. Sá sem eru undir áhrifum dáleiðslu hefur stjórn á hegðun sinni. Ef dávaldur biður þann dáleidda um að gera eitthvað sem gengur gegn sannfæringu hans þá mun hann ekki hlýða, ekki frekar en hann myndi gera vakandi. 

Algengur misskilningur er að fólk haldi að dáleiðsla hafi þau áhrif á hinn dáleidda að hann sé nánast viljalaust verkfæri í höndum dávaldsins. En staðreyndin er sú að það er ekki hægt að dáleiða þann sem vill ekki láta dáleiða sig. Sá sem er dáleiddur er ekki leiksoppur dávaldsins.

Sá dáleiddi getur hreyft sig, svarað og til dæmis hóstað á meðan á dáleiðslunni stendur. Oftast nægir að opna augun til að komast undan dáleiðsluáhrifunum. 

Þó svo að hegðun og hugarstarf fólks geti breyst í kjölfar dáleiðslumeðferaðar þá er dáleiðsla ekki heilaþvottur. Sá sem dáleiðir notar leiðir til að hafa áhrif en sá sem er dáleiddur er aldrei viljalaus móttakandi. 

Hentar dáleiðsla í öllum tilvikum?

Dáleiðsla getur verið gagnleg til að vinna með ýmsan vanda þó hún sé alls ekki lausn á öllu. Með kerfisbundinni notkun á sefjunaráhrifum getur hún gagnast einna best, sé hún rétt notuð. 

Dáleiðsla getur hjálpað fólki að vinna úr áföllum og tilfinningum sem tengjast þeim. Í dáleiðslu er hægt að rifja ýmislegt upp sem tengist fortíðinni og fyrri lífum. 

Hvernig fer dáleiðsla fram?

Fyrst er rætt við viðkomandi og áhersluatriði rædd (s.s. hvað á að vinna með, hvers er óskað að ná fram). Dáleiðarinn leiðir viðkomandi í svokallað leiðsluástand með ákveðnum aðferðum sem tengjast djúpri öndun, slökun og myndrænum lýsingum. 

Hvað tekur við eftir að leiðsluástandi er náð er ólíkt eftir því hvað unnið er með. 

Dáleiðslumeðferð tekur tæpa klukkustund og mælt er með að minnsta kosti tveimur skiptum og alveg upp í tíu (fer eftir hvað unnið er með hverju sinni).  

Hrafnhildur Sigurðardóttir

Fyrirlestrar, námskeið, lífstílsráðgjöf, sálgæsla, heilun, dáleiðsla, tarotlestur og fyrirbænir

Hafðu samband