Draumar

Okkur dreymir að meðaltali 10-20 % af svefntímanum en af hverju munum við bara suma drauma?

Draumar hafa lengi þótt merkilegir og jafnvel verið taldir geta gefið upplýsingar um framtíðina eða um manns eigið ómeðvitaða hugarstarf. Ekki er langt síðan farið var að rannsaka drauma á vísindalegan hátt en talið er að okkur dreymi um 10-20 % svefntímans. Vísindamenn eru ekki sammála um af hverju fólk dreymir. Talið er að draumar séu uppgjör á deginum og hreinsun í undirmeðvitundinni. Ein hugmynd er sú að draumar séu afleiðing af þeirri miklu heilavirkni sem á sér stað í svefni. Vísindamenn telja að draumar geti komið með mikilvægar upplýsingar um heilsu okkar, jafnvel varað okkur við sjúkdómum löngu áður en líkamleg einkenni koma í ljós. Ein kenningin er að í svokölluðum REM-svefni styrkist nýjar minningar og tengist við eldri, það mætti líkja því við að verið sé að taka til í heilanum.

Af hverju munum við bara suma drauma?

Við munum yfirleitt bara tvo til fjóra drauma á viku þrátt fyrir að okkur dreymir fjórum til sex sinnum á nóttu. Lengd draums er háð lengd draumsvefnsskeiðsins og hvernig fólk vaknar hefur afgerandi áhrif á varðveislu og upplifun draums. Ef við vöknum rétt eftir REM-svefn eða erum vakin af honum munum við yfirleitt hvað okkur var að dreyma. Ef við höldum áfram að sofa þegar draumurinn endar, gleymum við honum.

Draumskeiðin eru styst í byrjun nætur en lengjast þegar líður á nóttina. Sýnt hefur verið fram á að lengd draums er háð lengd draumsvefnsskeiðsins.

Að túlka drauma

Draumar eru af ýmsum toga. Allir þeirra hafa einhverja merkingu. Flestir draumar eru svokallaðir úrvinnsludraumar en þá er verið að flokka, greina og vinna með það sem við höfum upplifað áður. Slíkir draumar eru góðir til að hjálpa okkur að vinna með gömul áföll, til að skilja okkur sjálf betur og samskipti okkar við aðra. Andlegir draumar sem hægt er að túlka sem fyrirboða, leiðsögn eða viðvörun eru sjaldgæfari en til að kunna að túlka þá þarf maður að vera læs á táknin sem birtast í þeim.

Hér undir Tákn á síðunni er hægt að fletta upp á algengum táknum sem birtast fólki bæði í draumum og hugleiðslum.

Ef þú ert með draum sem þú átt erfitt með að túlka er þér velkomið að senda mér hann í tölvupósti.

Hrafnhildur Sigurðardóttir

Fyrirlestrar, námskeið, lífstílsráðgjöf, sálgæsla, heilun, dáleiðsla, tarotlestur og fyrirbænir

Hafðu samband