Veittu öðrum innblástur

Þú ert skapari lífs þíns. Þú ert handritshöfundurinn og aðalleikarinn. Njóttu þín á sviðinu, þú ert í sviðsljósinu. Í lífinu ber þér að nota allt leiksviðið, alla búningana og alla leikmunina. Líkt og á leiksviði eru aðstoðarmenn baksviðs og hvíslari. Í lífinu eru líka aðstoðarmenn sem fylgja þér hvert skref og undirbúa næstu skref sem þú hyggst taka. Þeir grípa þig þegar þú misstígur þig. Hvíslarinn er innri rödd þín sem þú heyrir einungis í þegar hugur þinn hljóðnar. Leyfðu þessum aðilum að taka þátt í að létta þér lífið. Þeir eru með ólík hlutverk til að styðja þig og vilja vera í samskiptum við þig.

Öll leikrit eru með þema og þættirnir eru ólíkir. Því er líkt farið í lífinu. Það er eitthvað leiðarstef sem er endurtekið sem þú hefur tækifæri til að læra af. Þegar þú ert í dramatískum þætti máttu aldrei gefa upp vonina um næsti kafli verði léttari. Við þurfum að upplifa allt litróf tilfinninganna, annars fer enginn þroski fram. Leyfðu meðleikurum þínum og aðstoðarmönnum að veita þér hjálparhönd þegar þú ert að takast á við dramatíska rullu. Hafðu trú á að næsti þáttur bjóði upp á meiri kátínu og gleði.

Áhorfendur lifa sig inn í líf þitt, þeir finna til með þér og fagna þegar vel gengur. Gerðu líf þitt að meistaraverki. Veittu öðrum innblástur. Skapaðu einstakt leikverk sem fær áhorfendur til að rísa á fætur, hylla þig og heiðra í lok sýningar.