Draumar næturinnar geta gefið þér vísbendingu um sálarlíf þitt og jafnvel veitt þér innsýn í óorðna atburði. Allir draumar bera með sér tákn sem felast í myndlíkingum, litum og tilfinningu. Þú þarft sjálf/ur að verða sérfræðingur í eigin draumum til að geta skilið betur sjálfa/n þig og hvert þú ert að stefna.
Ástæðan fyrir því að í draumum geta leynst fyrirboðar er að leiðin þín hefur verið vöruðu, bæði af þér, dag frá degi og einnig hafa vörðurnar verið ákveðnar löngu fyrir þína jarðvist. Stóru vörðurnar tengjast sameiginlegu karma fjölskyldu þinnar, samfélags og mannkyns. Þú getur alltaf haft áhrif á litlu vörðurnar og hvaða leið þú velur á milli þeirra en til þess að sú leið verði sem farsælust þarftu að læra að hlusta vel á innsæi þitt, meðal annars með því að ráða í tákn drauma þinna. Fyrsta skrefið til að kynnast draumum sínum betur er að skrifa þá niður um leið og þú vaknar því annars er hætt við að þú gleymir þeim. Leyfðu undirvitund þinni að meðtaka drauminn. Flettu upp þeim táknum sem þú skilur ekki hvað merkja en ein besta leiðin er að leyfa draumnum að ljúkast upp sjálfum en það gerist með tímanum. Allur gangur er á því hve langan tíma draumar taka að rætast, allt frá nokkrum klukkustundum upp í mörg ár. Þér er ekki ætlað að skilja af hverju þú færð leiðsögn, þér er bara ætlað að treysta framvindunni og finna frið og ró í hjarta þínu.