Tilhlökkun og bjartsýni

Horfðu á lífið full/ur tilhlökkunar. Lífið hefur upp á svo margt að bjóða sem er tilhlökkunar virði. Ef þú hlakkar til hvern einasta dag þá fyllistu gleði og bjartsýni. Bjartsýni er innra ljós sem fylgir þér hvernig sem viðrar í huga og heimi. Þeim sem eru bjartsýnir gengur vel í lífinu, bjartsýnin veitir ákveðinn meðbyr. Þú skalt alltaf búast við hinu besta því þá hækkarðu tíðni þína og dregur að þér orku sem er á svipuðu reki og þín eigin orka. Það gerir engum gott að undirbúa sig fyrir það versta sem gæti gerst hverju sinni, þá ertu að lifa í óttanum og óttinn dregur úr gleði og kærleika. Andaðu að þér gleði og fylltu huga þinn að jákvæðum setningum hvern einasta dag. Æfðu þig í að horfa með bjartsýnisgleraugunum á allt sem á vegi þínum verður. Margir munu reyna að draga úr þér en þú heyrir hvíslið í vindinum, óminn frá hafinu, söng fuglanna og sérð grasið vaxa. Lærðu að taka eftir þessum dýrmætu augnablikum og dragðu upp myndir í huga þínum af gleði og fullkomnun náttúrunnar þegar þér finnst erfitt að halda fram á við. Það skiptast alltaf á skin og skúrir en mundu að á eftir regni kemur aftur sól sem gefur öllu léttara yfirbragð. Notaðu sólina og geisla hennar til að bæta geðið. Ef sólin er ekki til staðar, skaltu hugsa um sólina, sjá sólina fyrir þér myndrænt og fylla huga þinn og sál af ljósinu frá sólinni. Þú getur líka séð fyrir þér allar frumur líkamans draga í sig þessa sólargeisla, jafnvel séð fyrir þér litlar sólir inn í frumunum og líffærunum.