Sjáðu fyrir þér stórt og mikið tré. Virtu tréð vel fyrir þér. Skoðaðu börk trésins, greinar þess og krónuna. Kannski geturðu séð fyrir þér hvernig rætur trésins liggja djúpt ofan í jörðinni. Tréð getur verið táknmynd þess að tengja saman himinn og jörð.
Nú skaltu ímynda þér að þú sért þetta stóra og mikilfenglega tré. Rætur þínar teygja sig djúpt ofan í jörðina og tengja þig þannig við jörðina. Þú getur jafnvel fundið fyrir umvefjandi hlýju og væntumþykju Móður Jarðar. Líkami þinn er eins og stofn trésins, teinréttur og kraftmikill. Hendur þínar eru eins og greinar trésins, sem teygja sig til móts við ljósið, taka á móti kærleikanum frá öðrum og gefa frá sér hlýju og mýkt. Höfuð þitt er eins og króna trésins sem er eins og tenging þín við himininn, viskuna, alheimsorkuna.
Í hvert sinn er þú stendur í uppréttri stöðu geturðu kallað fram þessa sýn; að þú sért tré lífsins, tenging himins og jarðar. Þú ert sköpun himins og jarðar. Móðir jörð gaf þér líkama þinn, styrk og stöðugleika. Lífsandann og sálina fékkstu frá Guði, sem elskar þig meira en orð fá lýst. Þú ert sköpunarverkið, farvegur ljóssins sem flæðir til þín með allri sinni mýkt og fegurð. Það er þitt að bera ljósið áfram og bæta þannig samfélagið á jörðinni.