Handleiðsla Guðs fer fram í þögninni. Í þögninni finnurðu svör við öllum þínum erfiðustu spurningum. Á hverjum degi skaltu gefa þér stund þar sem þú ert ein/n með sjálfri/um þér og gerir ekkert nema að hlusta á þögnina. Lærðu að hlusta eftir svörunum sem búa í þögninni. Svörin geta birst þér í myndformi, í orðum, hljóðum eða tilfinningu. Hvernig tákn Guð notar til að tjá sig þannig að þú skiljir fer eftir dagsformi þínu og innri ró.
Þegar þú þjálfar þig í að taka á móti leiðsögn Guðs skaltu sitja á rólegum stað þar sem ekkert áreiti nær að trufla þig. Dragðu athygli þína að andardrættinum og æfðu þig í að sleppa taki af husunum þínum. Þegar ró hefur færst yfir hugann þá nærðu tengingu við sál þína. Hún getur meðtekið boðskap Guðs. Persónuleiki þinn getur þvælst fyrir fyrst um sinn sem og rökhugsun þín en ekki gefast upp því þolinmæði þrautir allar vinnur. Að temja huga sinn er ein mikilvægasta þraut sem þú stendur frammi fyrir. Ekki vanmeta mátt þinn og megin til að sjá, heyra og skynja það sem er handan við þá veröld sem þú lifir í nú. Efnisheimurinn er aðeins hluti af þeim heimi sem raunverulega er til. Þegar hinn andlegi heimur opnast fyrir þér muntu skilja betur hlutverk efnisheimsins því hann er afsprengi hins andlega heims.