Þjáning Krists

Þjáning Krists var frelsun fyrir mannkynið. Krossfestingin táknar þá miklu umbreytingu sem verður þegar dauðinn tekur við. Kristur sýndi mönnum að dauðinn er aðeins umbreyting, sálin lifir í ljósinu. Þegar þú hleypir Kristi í líf þitt muntu sjá og skilja máttinn sem guðsorkan býr yfir. 

Sorgin, vonleysið og sú átakanlega sýn þegar Jesús Kristur var á krossinum var mönnum nánast óbærileg. Illskan sem þið mennirnir leyfið ykkur að sýna í garð náunga ykkar getur tortímt ykkur ef þið gætið ekki að því að hlúa að ljósinu innra með ykkur. Á degi sem þessum er gott að minna sig á þá gjöf sem Kristur gaf mannkyninu. Hann gaf ykkur von. Von sem þið berið í brjósti ykkar, von um betra og friðsælla líf. Verði þinn vilji svo á jörðu sem á himnum, kenndi Jesús en þó getur enginn annar en þið sjálf fært himnaríki í ykkar líf. Krossfestingin minnir okkur á að lífið er eilíft. Þjáningar taka enda og eftir myrkur kemur ljós. Ljósið er og verður alltaf sterkara en myrkrið. Kærleikur býr í brjósti ykkar en alltof fáir hleypa kærleikanum upp á yfirborðið og sýna hann samferðamönnum. Kærleikur er eini gjaldmiðillinn á himnum. Verk ykkar eru vegin út frá því hve mikinn kærleika þið hafið borið til náungans. Allt annað er einskis virði. Leyfið páskahátíðinni að ylja ykkur um hjartaræturnar. Hleypið ljósi Guðs inn í líf ykkar og leyfið fallega gula litnum sem páskarnir bera minna ykkur á það gyllta undurfagra ljós sem er í ríki Guðs. Upprisa sálarinnar er allra, ekki aðeins fyrir fáa útvalda. Leyfðu sál þinni að rísa upp í lifanda lífi og gerðu góðverk á hverjum degi. Sálin verður tærari og hreinni með hverju góðverki sem þú gerir og kærleiksrík sál er demantur í ríki Guðs. Páskarnir eiga að minna ykkur á að sálin er eilíf, kærleikurinn er sá kraftur sem verkar á allt og alla og trúin sem þið hafið bæði á menn og Guð hjálpar ykkur til að skapa guðsríki á jörðu.