Krafturinn sem býr innra með þér lýsir þeim viljastyrk sem sál þín býr yfir. Leyfðu þessum krafti að fara í þann farveg sem nýtist mannkyninu sem best. Finndu hvar straumur þinn liggur, hvar þú getur kveikt sem flest ljós með þínu ljósi. Þessu mætti líkja við raforkuver. Þú býrð yfir orkunni og ljósið sem stafar frá þér er eins og rafstrengur sem snertir hjörtu þeirra sem þú umgengst. Hafðu það að markmiði þínu að snerta sem flest hjörtu á lífsleiðinni. Þetta geturðu gert með framkomu þinni, orðum, gjörðum og nærveru. Það sem þú gefur öðrum muntu fá til baka á einn eða annan hátt. Tilurð þín byggir á þessu flæði manna á milli. Alheimsljósið tengir allt og alla saman. Sannleikurinn er upplýstur af þessu ljósi, lögmál alheimsins lýtur vilja Guðs. Vilji Guðs er kærleikur, sannleikur og sátt. Berðu sannleikanum vitni, vertu boðberi ljóssins og hafðu það að markmiði þínu að sættast við Guð og menn. Náttúran þarf einnig á þínu ljósi að halda. Án ljóssins er ekkert líf á jörðinni, ljósið er sterkasta afl veraldar. Myrkrið mun aldrei sigra ljósið sem byggt er á tilveru Guðs. Guðsorkan þarf þitt vitni, þinn farveg til að hægt sé að koma orkunni á framfæri.