Tengjum saman hjörtun

Á tímum sem þessum er mikilvægt að hver og einn gefi sér tíma á hverjum degi til að hugleiða. Að leiða hugann inn á við, tengjast sál sinni og þeim tæra kærleika sem þar býr. Hver sál er tengd Guði og styrkurinn sem Guð býr yfir nýtist vel í ógnvekjandi aðstæðum. Líta má á veiruna sem ógnar mannkyninu sem tækifæri til að tengja hjörtu mannkyns saman. Saman getið þið eflt styrk ykkar og ljós þó svo að sundrung eigi sér stað í hinum ytra heimi. Þegar þið aftengist efninu og færið athyglina nær andanum eflist innsæið ykkar, trú, von og kærleikur. Treystið að ljósið muni sigra myrkrið. Hafið kærleikann að vopni en varist að hverfa í óttann. Óttinn dregur úr krafti ykkar, vörnum og veikir bæði ónæmiskerfið og viljann til framkvæmda. Óttinn dvelur í myrkrinu. Kærleikurinn dvelur í ljósinu. Haldið í húmorinn, léttleikann og vonina. Munið að biðja um vernd, styrk og visku til að takast á við vandann sem virðist óyfirstíganlegur eins og er. 

Finnið leiðir til að faðma, án snertingar. Tjáið kærleika ykkar í orðum. Sýnið öðrum ást og umhyggju með blíðu augnaráði, brosi og hlýjum kveðjum. Þroski á sér stað í þrengingum. Trúið að útkoman verði mannkyninu til góðs. Heilun móður jarðar og mannkyns á sér stað um leið og hver og einn hlúir betur að gildum sínum, áherslum í lífinu og gefur sér tíma til að hægja á takti lífsins með sínum nánustu. Þeir sem einangrast vegna ástandsins eiga bágt og því reynir á ykkur sem hafið kraft og getu til að nýta tæknina til að halda tengslum. Skoðið vel hvað þið getið gert. Hvað eruð þið aflögu fær um? Hvernig nýtist góðmennska ykkar sem best? Svörin eru í hjartanu, ekki höfðinu. Nú er tími til að tengjast hjartanu, finna til samúðar og samkenndar og styðja þá sem eiga um sárt að binda.