Þegar þú finnur að hugsanir þínar draga úr þér mátt og þú átt erfitt með að sjá ljósið geturðu sótt kraft og endurnýjun til himins og jarðar. Móðir Jörð færir þér gjafir á hverjum degi í formi lita, tóna, lyktar, orku, friðsældar og fegurðar. Notaðu þær aukastundir sem þú átt til að leyfa Móður Jörð að umvefja þig hlýju sinni. Þú getur til dæmis gengið um í fallegum skógi, í kringum vatn, upp á fjall eða meðfram strönd. Þú getur lagst í dúnmjúkan mosa, gengið um berfætt/ur í grasinu, faðmað tré, strokið höndunum yfir stráin og fundið lyktina af blómunum. Hlustaðu af athygli á hljóð náttúrunnar, kannski heyriðu í suði frá flugu, vind bærast í trjánum, öldur berast að landi eða fugl syngja.
Njóttu þess að láta geisla sólarinnar verma kinnar þínar, goluna feykja til hárinu eða regnið falla á kollinn. Finndu gleðina í náttúrunni og leyfðu gleðinni að færast yfir þig. Umheimurinn veitir þér innblástur, orku og færir þér ferskleika. Leyfðu náttúrunni að hreinsa huga þinn og tengja þig betur við sál þína.