Við getum öll tengst okkar innsta kjarna, sálinni okkar og þaðan upp á við til Guðs. Þegar við náum því finnum við friðinn og sáttina sem því fylgir. Þegar við gefum okkur stund í þögn til að kyrra hugann og sleppa taki af áreiti hversdagsins erum við um leið að tengjast Guði.
Kærleikurinn, fegurðin og friðsældin sem fylgir hinni guðlegu teningu er mjög mikil. Til þess að geta náð þessari tengingu og þannig tekið á móti hinum guðlega krafti er nauðsynlegt að hækka smám saman orkutíðni sína.
Þegar tengingin við ljósið hefur náðst opnast hinn andlegi heimur smám saman. Það geta allir þjálfað sig í að tengjast uppsprettu ljóssins. Við erum öll neistar af ljósinu og er sál okkar sköpuð í Guðs mynd. Það má segja að við séum öll ljósberar en felum ljósið okkar á bak við persónuleika, störf og hlutverk okkar í leikriti lífsins.
Um leið og við tengjumst okkar innsta kjarna, sálinni okkar, sjáum við tilveruna í skýrara og bjartara ljósi, fyllumst von en ekki vonleysi og hættum að líta á okkur sem fórnarlömb. Við fáum þá kraft til að hjálpa öðrum að blómstra, en tilgangur okkar allra er að hjálpa, taka á móti kærleika og breiða hann út.