Sannar gjafir um jól

Nú fer í hönd hátíð ljóss og friðar. Mikilvægt er að fjölskyldur sameinist til að sýna kærleika, ást og umhyggju. Gjafir gleðja, sér í lagi yngstu kynslóðina, en samveran, nándin og hlýjan sem þið sýnið er mesta og dýrmætasta gjöfin sem þið getið gefið. Hugið að ljósinu sem býr innra með hverju og einu ykkar. Það ljós var tendrað um leið og þið urðuð til. Þó svo að ljósið sé ekki sýnilegt öllum þá er það nú samt til staðar og það er ykkar að finna leið til að leyfa því að skína sem skærast. Notið tímann nú þegar sólin er lægst á lofti til að leyfa ykkar innra ljósi að lýsa upp veröldina. Með því að gefa af ykkur kærleika og hlýju eruð þið um leið að leyfa ljósgeisla ykkar að dreifa sér til samferðamanna ykkar. Verið einnig gjafmild á bros og hlýtt augnaráð, hrós og hvatningu. Gefið af tíma ykkar. Ykkur mun verða ríkulega launað.