Ræktaðu andann

Leitin hefst hjá þér. Ljúktu dyrunum upp og þú munt finna það sem þú leitar að. Innst í kjarna hvers manns er fjársjóðurinn geymdur, falinn fyrir sumum en öðrum ljós. Þegar kjarninn er fundinn hefst lífið fyrir alvöru. Þetta er svo einfalt þegar hulunni hefur verið svift frá. Ljósið er allt um kring, umlykur og smýgur alls staðar inn. Ljósið er lífið, lífsneistinn sem kveikir á öllu. Ljósið er Guð, almættið, alheims kraftur, viskan. Guð er almáttugur. Guð fer ekki úr tísku, verður ekki í tísku því Guð er; „ég er“. Því fleiri sem opna augu sín, sál sína og visku gagnvart Guði, þessum alheims kærleika sem Guð er, því magnaðara verður lífið og tilveran. Ljósið getur öllu myrkri eytt, en það þarf að hleypa því að.

Gefðu þér tíma til að setjast niður í rólegheitum og leita inn á við. Lokaðu augunum og hlustaðu á þögnina því í henni er viskan. Hún hvíslar til sumra, sýnir sig í myndum hjá öðrum og tilfinningum hjá sumum, vegir Guðs eru óendanlegir. Gefðu þér þessa næðisstund, á hverjum degi. Ræktaðu andann ekki síður en líkamann. Andinn er eilífur ekki líkaminn en líkaminn er musteri sálarinnar því skal ekki gleyma og því þarf að fara vel með musterið. Eins og þú vilt heima í fínu og fallegu húsi, þá má líkja líkamanum við húsið þitt, þú dvelur þar um stund og flytur svo annað þegar sá tími kemur.