Ljósgeislar Guðs

Nú er sól hæst á lofti og sumarsæla í sálum okkar. Þá er ekki úr vegi að hugsa um hvenær sólin er hæst á lofti í þinni sál. Hvenær líður þér best? Með hverjum ertu og hvað ertu að gera? „Sól úti, sól inni, sól í sálu minni“ segir í ljóðinu fallega og er það táknrænt fyrir þá gleði sem sólin veitir okkur. Sólin minnir okkur á uppsprettu Guðs, ljós Guðs. Guð er eins og sólin og sálir okkar eins og geislar hennar. Sólin gerir ekki upp á milli geisla sinna, ekki frekar en Guð gerir upp á milli barna sinna. Þegar þú byrjar að líta á þig sem sólargeisla Guðs ferðu að átta þig á að Guð býr hið innra í allri sköpun. Leyfðu ljósi þínu að skína. Leyfðu ljósgeisla Guðs að birtast í gegnum þig. Leyfðu þér að birta elsku Guðs til allra sem þú hittir og hefur samskipti við. Leyfðu Guði að vinna í gegnum þig.