Ljós heimsins

Þegar þú vilt nálgast Guð er nóg að hugsa til hans. Guð er alls staðar. Hvenær gefur þú þér tíma til að hugleiða Guðs orð? Nú er jólahátíðin framundan og margir velta trú sinni og lífsgildum fyrir sér. Kærleikurinn fær meira gildi og umhyggja fyrir náunganum og þeirra sem minna mega sín fær stærri hlutdeild í hjarta okkar. Um þetta leyti er gott að minnast þess ljóss sem hvert og eitt okkar ber innra með sér og minnir okkur á fæðingu Jesú Krists, ljóss heimsins. Þetta ljós berum við öll innra með okkur og það er okkar að leyfa öðrum að fá að sjá ljósið, ekki bara á jólum heldur alla daga ársins. Ljósið skín skærast þar sem myrkrið er mest og því er gott að hugleiða hvar ljósið þarf helst að skína. Vertu ljósgjafinn sem þér er ætlað að vera, hjálpaðu öðrum að feta sig áfram í myrkrinu og vertu kyndillinn sem aðrir þurfa til að geta tendrað ljós hjá sér. Með hverju nýju ljósi sem fylgir þér stækkar hjartað þitt og kærleikurinn eykst. Vertu viss um að þér sé hjálpað að öflum sem eru mun máttugri en þig grunar. Öflum sem sigra allt óréttlæti og grimmd manna. Styrkur þinn kemur frá himnum, uppspretta lindarinnar liggur þar, hvergi annars staðar. Guð er með þér alla daga allt til enda veraldar, því skaltu aldrei gleyma.