Ljós heimsins

Birta dögunar minnir þig á að ljósið sigrar alltaf myrkrið. Það þarf ekki nema litla ljóstýru til að umbreyta myrkrinu í hlýju og fylla hjartað von. Eins er farið með eitt bros sem getur dimmu í dagsljós breytt. Bros frá vörum þínum sendir þeim sem þú mætir hlýju og yl, veitir von. Ef þú finnur fyrir depurð skaltu prrófa að hugsa um einhvern atburð í lífi þínu sem fær þig til að brosa. Veltu fyrir þér hvað það er sem þú getur þakkað fyrir sem lífið hefur fært þér. Lýstu upp huga þinn með minningum sem ylja. Lýstu upp hjarta þitt með kærleiksríkum tilfinningum í garð þeirra sem þér þykir vænst um. Hleyptu guðsorkunni í hjarta þitt svo þú getir fundið hve heitt Guð elskar þig, hve bjart ljósið er sem fylgir þér alltaf, þrátt fyrir myrkur og drunga sem gæti umlukið þig. Trúðu því að ljósið muni sigra, friður muni ríkja bæði í hjörtum og sinni, trúðu því að allir geti átt möguleika á að halda heilög jól til að minnast skærasta ljóssins sem fæðst hefur á jörðu. Jesús Kristur minnti okkur á að vera ljós heimsins. Vertu ljós heimsins og taktu eftir hvernig þú getur lýst upp veröldina með brosi þínu og hlýju.