Nýttu líf þitt til að blómstra

Nú þegar sólin hækkar á lofti fara blómin að springa út og gleðja í leiðinni stóra sem smáa. Þegar þú gengur um garðinn þinn, í náttúrunni eða á öðrum stað þar sem blóm vaxa skaltu veita fegurð þeirra eftirtekt. Blóm eru sköpuð til að gleðja þig með litum sínum og lögun. Taktu eftir hverju smáatriði blómsins. Taktu eftir lit þess og lögun. Athugaðu hvort blómið hafi lykt og taktu eftir hughrifum þínum við að virða blómið vandlega fyrir þér.

Þú getur litið á sjálfa/n þig sem blóm. Hvaða blóm myndi lýsa þér best? Hvernig myndir þú springa út? Í hvaða lit værir þú? Hvaða guðsgjafir hefur þú falið og finnur nú þörf hjá þér að leyfa að líta dagsins ljós? Leyfðu þér að springa út eins og fallegt blóm. Blómið sem þú ert veitir öðrum gleði, líkt og blóm náttúrunnar. Nýttu tilveru þína til að gleðja og fegra veröldina með. Nýttu líf þitt til að blómstra.