Jól

Jól eru hátíð ljóss og friðar. Jesús fæddist í þennan heim til að minna okkur á tæran kærleika Guðs. Í Jesúbarninu sjáum við svo skýrt hreinleikann og fegurðina sem Guð býr yfir. Í hvert sinn er við lítum í augu saklauss barns skynjum við vel þessa guðdómlegu fegurð. Gefðu þér stund nú um hátíðirnar til að tengjast þessum tæra kærleiksríka kjarna. Þú getur nálgast tilfinninguna í augum barns, í gleði samferðafólks þíns, í gegnum hjartað með því að finna hve gott er að gefa og þiggja gjafir. Ljós heimsins býr í þér. Þú hefur máttinn, dýrðina og eilífðina innra með þér, í guðsneistanum eilífa. Einsettu þér að gera góðverk á hverjum degi nú yfir hátíðirnar. Leggðu þig fram um að bæta andrúmsloftið með nærveru þinni. Gefðu af þér ást og kærleika í þeirri von að ylja þeim um hjartarætur sem þér er annt um. Leyfðu Jesúbarninu að lifa í hjarta þínu og birtast í einlægni og kærleika.