Temdu þér að vera í tilfinningalegu flæði í takt við árstíðirnar. Nú þegar haustið er í hámæli er gott að huga að því að sleppa taki af því sem hefur verið að íþyngja þér, leyfa gömlum laufum að falla til jarðar. Notaðu vindinn og umbreytinguna í náttúrunni til að feykja burt þeim þyngslum sem sál þín hefur verið að burðast með. Sjáðu fyrir þér jörðina taka á móti því sem þú vilt sleppa taki af og umbreyta því í annað orkuform, líkt og gerist með laufin þegar þau umbreytast í mold.
Í vetur skaltu nota tímann til að hlúa vel að þér, taka því rólega og njóta þess að hvílast. Á veturna liggur náttúran í dvala og það skalt þú líka gera. Hér á Íslandi minnkar smám saman birtan og þá er mikilvægt að þú hlúir vel að innra ljósi þínu. Kveiktu á kertum til að minna þig á ljósið hið innra. Sýndu þér mildi og hlýju í vetur og þegar þú umvefur teppi utan um þig í kuldanum skaltu hugsa þér að verið sé að faðma þig innilega og sýna þér ást og umhyggju.
Í vor lifnar allt aftur við og byrjar að spretta á ný. Þá muntu finna aftur fyrir löngun til að sá nýjum fræjum, vökva gamla drauma og dusta rykið af draumum þínum og þrám. Leyfðu þér svo að blómstra í sumar, leika þér og njóta þín í sólinni.
Hver árstíð hefur sinn sjarma, eins er farið með „rythmann“ í þínu lífi. Njóttu þess að vera í takt við náttúruöflin og finndu orkuna sem fylgir hverjum ársfjórðungi.