Hvert er hlutverk þitt?

Hver ertu í raun og veru? Til hvers komstu á jörðina? Hvert er hlutverk þitt? Hvaðan kemur lífskraftur þinn? Hvert er þitt leiðarljós? Spurningum sem þessum ber þér að svara af kostgæfni. Svörin munu ekki reynast þér auðveld en gefðu þér tíma, stað og stund til að svara út frá þínum dýpsta sannleika og visku. 

Þið eruð öll komin frá ljósinu til að sigra myrkrið, bæði sem býr í ykkur sjálfum og umhverfi ykkar. Einungis þeir hugrökkustu þora að líta djúpt í eigin sál og viðurkenna sitt eigið myrkur. Það reynist fólki auðveldara að sjá myrkur í öðrum en til þess að uppræta myrkur þarf hver og einn að byrja á sjálfum sér og hlúa að sínu eigin ljósi. Kannski leynist þar einungis ljóstýra en þá er gott að muna að hvaða ljós sem er getur umbreytt myrkri í birtu. Þegar hver og einn hefur hlúð að sínu ljósi er hann betur í stakk búinn til að hjálpa öðrum að gera slíkt hið sama. Saman myndum við mikið bál. Bál sem hefur kraft, þor og hugrekki til að sigra hið illa. En munið þó að það er bæði hægt að ylja sér við bálið og einnig nota það til eyðileggingar. Það þarf að halda öllu í skefjum, líka ljósinu og fara ekki of geyst í að breiða það út. Farðu vel með þig, hlúðu að þér á hverjum degi, hlúðu að þínu innra ljósi svo veröldin megi verða bjartari.