Hverjir eru þínir verndarenglar?

Þegar þú tengist þínu innra ljósi og þar með ljósi Guðs mun líf þitt öðlast dýpri skilning. Þegar ljós Guðs vísar þér leiðina fara hlutir að gerast sem þig grunaði ekki að gætu gerst. 

Kallaðu til þín verndarengla þína og þeir munu vel fyrir sjá. Hverju og einu ykkar fylgir engill, stundum fleiri en einn og einnig leiðbeinendur sem hafa fylgt einstaklingum frá fæðingu. Þegar þú nærð að tengjast þessum fylgjendum mun líf þitt ganga betur. Þú þarft sjálf/ur að opna fyrir tenginguna því við truflum ekki framgang lífs þíns nema þú biðjir um vernd og hjálp. Þinn vilji er sterkari en okkar, því þú hefur val. Þú velur sjálf/ur hvaða leið þú vilt fara í lífinu en áður en þú komst til jarðar varstu búin/n að setja upp grófa áætlun um hvað þú vildir reyna til að þroskast sem mest. Tilgangur lífs þíns er að þroska sál þína í gegnum þau ótal verkefni sem á vegi þínum verða. Þú getur farið áfram á hnefanum og þrjóskunni en um leið og þú viðurkennir smæð þína og máttleysi gagnvart æðri máttarvöldum verður leiðin greiðfærari. Það eru til ýmsar leiðir til að tengjast Guði. Sumir kjósa að fara með bæn, aðrir hugleiða, enn aðrir setjast með kertaljós og hlusta á þögnina. Í þögninni eru svörin. Þú þarft að koma reglu á iðkun þína því annars vitum við sem hinum megin erum ekki hvenær þú vilt ná sambandi. Þetta er ekki ólíkt því þegar beðið er eftir símatali, það er verra að vera viðbúinn allan daginn ef hægt væri að skipuleggja tímann betur. Komdu þér upp aðstöðu heima hjá þér þar sem þú getur sest niður í ró og næði án áreitis frá heimilisfólki, símum eða öðru sem gæti truflað einbeitingu þína. Þetta er athvarf þitt til að hugleiða inn á okkar svið. Það er mikill styrkur fólginn í því að vita að með ykkur eru alltaf verndarenglar og leiðbeinendur sem eru boðnir og búnir til að hjálpa en bara ef þú gefur leyfi til þess. Annars eigum við erfitt með að grípa inn í framvindu lífsins. Trúðu og treystu og þér mun vera leiðbeint á rétta braut. Þroski þinn mun margfaldast og tilgangur lífs þíns mun verða skýrari með degi hverjum.