Ertu búin/n að ákveða næstu skref í lífi þínu? Eða ertu að bíða eftir rétta tækifærinu? Þó að leið þín sé fyrirfram vörðuð þarftu sjálf/ur að ákveða skrefin og leiðina á milli varðanna. Það gagnast lítið að bíða eftir rétta tækifærinu, tækifærið er í þínum höndum. Þær ákvarðanir sem þú tekur í dag hafa áhrif á morgundaginn. Þú verður sjálf/ur að vega og meta hvað þú vilt gera í lífinu, hvert þú vilt fara, hverja þú vilt hitta, hvaða sálir þú vilt snerta. Maðurinn hefur frjálsan vilja til að skapa sér það líf sem hann telur sér fyrir bestu. Stundum ganga áætlanir mannsins ekki upp þar sem óvæntir atburðir villa honum sýn um stund en þær hindranir sem verða á veginum eru ekki þar að ástæðulausu. Til að öðlast þroska í lífinu þarf hver og einn að takast á við verkefni við hæfi. Mörgum fallast kannski hendur og efast um tilgang lífsins, missa trúna á Guð og það góða, en þegar frá líður sjá flestir hvaða þroska hindrunin hafði í för með sér. Mikilvægt er að gefast ekki upp þegar erfiðleikar koma upp, muna að biðja um hjálp og hafa trú og von að leiðarljósi. Það þarf alltaf að gera áætlun um næstu skref og ef sú áætlun gengur ekki upp skaltu búa til aðra áætlun sem þú telur vænlegri til árangurs. Þú skapar þitt eigið karma með gjörðum þínum, hugsunum og orðum. Vandaðu því vel hvernig þú ráðstafar tíma þínum hvern dag.