Skipuleggðu tíma þinn vel. Hver dagur er dýrmætur, sem perla á bandi. Láttu ekkert utanaðkomandi trufla hugsun þína og stefnu. Fylgdu innri leiðsögn í hvívetna en til þess þarftu að skapa næði dag hvern. Í þögninni leynast orð Guðs, leiðsögn hans krefst þess að sérhver maður finni innri ró. Losaðu þig undan hlekkjum fortíðar. Það er til lítils gagns að horfa sífellt um öxl en ekki fram veginn. Áfangastaðurinn er fyrir framan þig en ekki aftan þig. Þegar erfiðleikar, veikindi og annað í þeim dúr truflar stefnu þá ber að hugsa í lausnum og anda rólega. Flest veikindi eru fyrirfram ákveðin, þroski sálarinnar hlýst er hún gengur í gegnum huldudali. Það er enginn annar en einstaklingurinn sjálfur sem þarf að ganga þessa braut, til að hljóta þann þroska sem sál hans þarf á að halda. Vissulega reyna veikindi oft á fjölskyldumeðlimi en þeirra er þroskinn einnig. Lykillinn að velgengni er að skapa góðar minningar með sínum nánustu, hvort sem áminningu eins og veikindi þarf til eða ekki. Ekki láta lífið fjúka framhjá án þess að búa til fallegar minningar handa þér og þínum. Það er margt skrifað í skýin en þú hefur einnig margt um það að segja hver næstu skref þín eru í þessu lífi. Þó svo að stóru ákvarðirnar í lífi þínu séu fyrirfram mótaðar af þér sjálfri/um áður en þú komst inn í þessa jarðvist þá eru litlu stundirnar og minni ákvarðanir alfarið í þínum höndum. En til að geta tekið sem besta ákvörðun er mikilvægt að hafa lært að staldra við og hlusta á innri visku í þögninni. Þú heyrir setningar, orð, tónlist, finnur tilifinningu og annað í þeim dúr sem getur hjálpað þér við að taka skynsamlega ákvörðun. Leiðbeinendur þínir eru til staðar ef þú vilt fá leiðsögn en ef þú biður ekki um hjálp hefurðu fullt vald til að taka ákvarðanir sjálf/ur. Vandaðu valið, það er ekki aftur tekið.