Hvað gleður þig?

Berið kennsl á þá sem minna mega sín og þurfa á hjálp að halda. Ljósið tifar í hjörtum þeirra en þau vita sum hver ekki hvert ætti að leita til að fá skjól og vernd. Sannleikurinn býr í brjósti allra, vísið leiðina þangað, inn í þögnina og kyrrðina. Leiðin að ljósinu er í gegnum hjartað en fyrst þarf hugurinn að hljóðna svo kyrrðin fái að komast að. Skellið ekki í lás vegna tímaskorts, tíminn er nægur enda einungis til staðar í ykkar veruleika. 

Veittu því athygli sem gleður þig. Gefðu þér daglega stund til að eiga innra spjall, bæði við Guð og þig sjálfa/n. Hvert ertu að stefna? Hver er þín leið? Hvert viltu fara? Hverju viltu áorka? Þú hefur allt í hendi þér en þú verður að hafa trú, von og kærleika að leiðarljósi svo að áform þín gangi upp. Efasemdir og ótti slá myrkri yfir áform Guðs. Ekki leyfa þessum neikvæða mætti að ná tökum á þér. Sjáðu birtuna sem framundan er, hún er líka í brjósti þínu, ekki hylja það ljós. 

Gæfa hvers manns er í höndum hans sjálfs. Hvernig fólk tekst á við lífið og áskoranir þess er alfarið undir hugsun hvers og eins komið. Temdu þér jákvætt hugarfar.