Hljóður hugur, hljótt hjarta

Góð tenging við sálina hefst með hljóðum huga. Þegar þú hefur náð valdi yfir hugsunum þínum, róað þær og sefað, nærðu betri stjórn á líðan þinni. Til að tengjast betur hjartanu þarftu fyrst að róa hugann og sleppa taki af öllum þeim aragrúa hugsana sem gætu verið að trufla þig. Leyfðu þér að vera án þess að gera. Leyfðu þér að sitja hljóð/ur um stund og draga athyglina að andardrættinum. Settu athyglina í miðja bringu og taktu eftir hvernig þú andar. Um leið og þú nærð teningiu við andardrátt þinn finnurðu hvernig allur líkaminn róast. Þú nærð dýpri tengslum við hjarta þitt, tilfinningar þínar og getur vegið betur og metið hvaða tilfinningar þarf að hlúa betur að. Hvaða gömlu sárum er enn að blæða úr? Tilfinningar þínar eiga rétt á að fá athygli, mega vera séðar og fá að komast úr myrkri yfir í ljósið. Hjarta þitt geymir fegurstu stundir lífs þíns en einnig þær myrkurstu. En mundu að þú þroskast meira í mótlæti en meðbyr. Veltu fyrir þér hvað heldur aftur af þér, bæði líkamlega og andlega. Hvað kemur í veg fyrir að þú finnur jafnvægi í leik og starfi? Þú ein/n hefur vald til að breyta líðan þinni og stefnu í lífinu. Trúðu því og treystu að yfir þér sé vakað, að þér fylgi vernd í öllu því sem þú tekur þér fyrir hendur. Að baki sérhverjum manni eru englar, verndarar og aðrir sem fylgja viðkomandi í þeirri von og viðleitni að hægt sé að leysa lífsins þrautir á farsælan hátt í átt að friði sálna og samfélaga.