Samband tveggja einstaklinga sem blessað er af Guði í hjónabandi er einn mikilvægasti samningur sem þú gerir. Með hjónabandi ertu að lýsa yfir vilja þínum til að elska aðra manneskju í blíðu og stríðu, allt til dauðadags. Með slíkum sáttmála innsiglar þú ást þína til annarrar manneskju frammi fyrir Guði og slíkan sáttmála má ekki slíta nema í algerri neyð. Þegar þú hefur stofnað fjölskyldu með ástinni þinni skaltu taka þá ábyrgð fram fyrir allt annað því börnin þín eru einnig börn Guðs, það dýrmætasta sem til er í veröldinni. Að halda stöðugleika fyrir fjölskyldu þína, virðingu fyrir maka þínum og kærleika til barna þinna er meira virði en þú gerir þér í hugarlund. Fjölskyldan er hornsteinn samfélgasins. Innan fjölskyldunnar fá börn að kynnast lífinu í smækkaðri mynd, prófa sig áfram, slípa til skap sitt og persónueinkenni. Ást milli hjóna endurspeglar þá ást sem þú ert fær um að gefa annarri manneskju, án skilyrða.
Manninum er eðlislægt að finna sér maka og vilja stofna fjölskylu. Opnaðu hjarta þitt fyrir elsku Guðs sem streymir til þín óhindrað. Þeirri elsku skaltu deila til annarrar manneskju sem þér þykir vænt um. Sýndu í orðum og verki hve mikið þú elskar samferðafólk þitt. Sýndu í orðum og verkum hvernig þú getur miðlað elsku Guðs til allra þeirra sem á vegi þínum verða. Kærleikurinn er allt.