Til að skapa það líf sem þú vilt uppskera þarftu að gefa þér stund í ró og næði og stilla þinn innri áttavita.
Hvað segir hjarta þitt?
Hverju viltu áorka?
Hvað langar þig til að uppskera í framtíðinni?
Hvaða drauma viltu sjá rætast?
Þinn innri drifkraftur hefur allt um það að segja hvað þú gerir úr lífi þínu. Leyfðu sköpunarþörf þinni að fá útrás. Við höfum öll eitthvað fram að færa mannkyninu til góðs. Finndu út hvaða hæfileikum þú býrð yfir sem gætu glatt aðra, lyft öðrum og stutt aðra til að ná sínum markmiðum. Þegar allir hjalpast að verður lífið töluvert auðveldara. Hjálpsemi laðar það besta fram í öðrum.
Leyfðu þér líka að þiggja þá hjálp sem aðrir bjóðast til að veita þér. Ef þú hefur aldrei þurft á mikilli hjálp að halda gæti það reynst þér erfitt í fyrstu að þiggja hjálpina. Kyngdu stoltinu og sýndu þér sjálfsmildi með því að þiggja aðstoð. Það er enginn það sterkur að hann geti gert allt einn. Saman erum við sterkari. Líkt og kaðall sem gerður er úr mörgum þráðum, fellst styrkur hans í að minni þræðir eru ofnir saman til að mynda eina heild. Hugsaðu um sjálfa/n þig sem hluta að stærri heild en þó einstaka veru með hæfileika sem þjóna jafnt þér og öðrum.