Hjálp vor kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar. Hefurðu beðið Guð um hjálp? Hefurðu beðið engla um hjálp? Hefurðu beðið menn um hjálp? Sumum reynist afskaplega erfitt að biðja aðra um hjálp og þá er gott að velta fyrir sér hvers vegna svo er. Það er engum ætlað að fara í gegnu lífið einn og óstuddur. Við þurfum á hverju öðru að halda til að byggja upp gott samfélag. Einangrun og einsemd er skaðleg. Ef þú finnur fyrir einmanaleika og telur þig ekki eiga marga sem þú getur leitað til með aðstoð geturðu alltaf treyst því að Guð mun veita þér huggun og alla þá hjálp sem þú þarft á að halda. Til að tengjast elsku Guðs þarftu að læra að hugleiða og tengjast innstu hjartarótum þínum og ljósinu sem þar er. Það ljós er neisti af guðsorkunni, ljósi Almættisins. Ljós Guðs tengist þínu hjarta á þennan hátt. Sjáðu fyrir þér að þú sleppir taki af íþyngjandi tilfinningum sem þú berð mögulega í hjarta þínu, takir þær burt lag fyrir lag og þá mun tær kærleikurinn koma smám saman betur í ljós. Finndu hvernig kærleiksorkan streymir utanfrá og inn í hjarta þitt og leyfðu kærleiksorkunni að breiðast smám saman út um allan líkamann. Þetta er fyrsta skref í átt að betri tengingu við Guð. Guð mun í framhaldinu geta leiðbeint þér betur svo þú megir vaxa og eflast til að lifa þinn tilgang, þína köllun.