Gakktu ávallt á Guðs vegum

Guð er innra með þér. Guð leiðbeinir þér í hverju skrefi. Lærðu að hlusta eftir leiðsögn Guðs. Notaðu bænir til að hjálpa þér að skerpa samband þitt við Guð og herskara himinsins. Þú ert aldrei ein/n. Með þér eru bæði leiðbeinendur, englar og þeir ástvinir sem á undan eru farnir og vilja hjálpa þér að rata hinn rétta veg. Kærleikur Guðs er allt um kring en þú þarft að koma auga á hann. Taktu eftir fegurð blómanna, himinsins, brosum barnanna og velvildinni sem náungi þinn sýnir þér. Vertu sönn/sannur í öllu því sem þú tekur þér fyrir hendur. Aldrei skaltu gefast upp þó á móti blási. Þú styrkist bæði í mótlæti sem og meðbyr. Tilgangur lífs þíns er jú að þroska sál þína svo hún megi komast á hærra svið þegar í handanheima er komið. Til þess þarftu að vera opin/n fyrir áskorunum sem fyrir þig eru settar í lífinu. Þegar þú tekst á við þessar áskoranir af jákvæðni, dugnaði og eljusemi opnast þér nýjar leiðir til innri þroska. Gakktu ávallt á Guðs vegum því þá mun lífið reynast þér léttara en ella. Sannleikur Guðs býr í hjarta þínu en þú þarft að muna að tengjast þeirri innri visku til þess að ná betri tökum á tilverunni.