Fyrirgefningin er fyrir bjartari framtíð

Fyrirgefningin er sú mesta heilun sem þú getur ímyndað þér. Að fyrirgefa bæði þér og öðrum hjálpar þér að mýkja hjarta þitt og búa til pláss fyrir meiri kærleika. Þegar þú fyrirgefur geturðu losnað undan karma sem þú átt við einstaklinginn sem gerði á þinn hlut. Fyrirgefning þín er ekki samþykki fyrir því sem var gert, heldur einungis fyrir þig sjálfa/n svo þú getir haldið áfram léttari í lund.

Við fáum aftur og aftur svipuð verkefni til að leysa sem tengjast samskonar óuppgerðu karma. Oftar en ekki tengjast þessar óuppgerðu tilfinningar sama einstaklingnum en upp koma ólíkir atburðir og samskipti. Þegar þú finnur að það er brotið á þér, finnur að þú verður að bera sannleikanum vitni, finnur að það eru ekki heilindi í samskiptum í kringum þig ber þér að líta á atburðinn, samtölin og tilfinningarnar sem þeim fylgja sem lærdóm.

Til að geta haldið áfram verðurðu að fyrirgefa. Þú gætir þurft að orða það sem fer fyrir brjóstið á þér en kannski reynist þér nóg að skrifa hjá þér atburðarásina og samtölin sem hleyptu tilfinningum þínum upp á yfirborðið. Síðan ber þér að heila hjarta þitt og allar aðrar tiflinningar sem þú finnur víðsvegar um líkama þinn.

Notaðu öndun og hugleiðslu til að sjá fyrir þér hvernig ný orka fyllir tómarúmið sem eftir verður þegar þú hefur sleppt taki af óþægilegu tilfinningunum. Fylltu tómarúmið af andardrætti, litum, kærleika, gleði og von um bjartari framtíð.