Friður í hjarta, friður í sinni

Friður í hjarta, friður í sinni. Fagnaðu hverjum degi eins og hann verði þinn síðasti. Gerðu eitthvað á hverjum degi sem gleður þig og aðra. Finndu hjarta þitt slá örar um leið og bros færist um andlit þitt. Komdu auga á fegurð og gleði annarra og leyfðu öðrum að smita þig af lífsgleði og kátínu. Lífið er ljúfur leikur sem hefur það að takmarki að færa gleðina og kærleikann nær hjörtum manna. Hver einasta manneskja á jörðinni veit í hjarta sínu hvernig leika á leikinn en hefur misst sjónar af lykilþáttum lífsins. Þú hefur vald í dag til að rifja upp hver þín gildi eru og minna þig á hvernig þú ætlar að miðla kærleikanum og gleðinni áfram. Bægðu skuggum burt og hleyptu ljósinu að. Taktu fagnandi á móti hækkandi sólu því frá og með deginu í dag fer ljósið að aukast á norðurhveli jarðar. Trúðu að um leið muni ljósið rísa í hjörtum manna og að bjartari tímar séu í höfn. Sannleikurinn, réttlætið og kærleikurinn mun sigra.