Fjársjóður falinn í hjörtum

Gleðin kemur innan frá. Ekkert sem aðir menn gera eða segja á að hafa áhrif á hversu mikla gleði þú finnur í hjarta þínu. Gefðu af þér og gleðin hið innra mun aukast. Gefðu kærleika, umhyggju, ást og hlýju. Gjafmildi er ekki mæld nema með þakklæti þess sem þiggur. Það kunna ekki allir að þiggja og þakka fyrir sig og virkilega meina það frá sínum innstu hjartarótum. Þeir sem hafa upplifað mikinn missi kunna betur að meta allt það sem okkur ber að vera þakklát fyrir. Sýnið öðrum umburðarlyndi, það eru allir að læra sína lexíu og vissulega taka sumir betur eftir en aðrir í skóla lífsins. Þannig er það, var og verður um aldir alda. Tíminn sem það tekur sál að uppljómast er mislangur frá einum manni til annars. Þeim sem hafa fundið ljósið, ber skylda til að lýsa leiðina fyrir hina sem enn eru í myrkrinu. Sýnið þolinmæði og dæmið ekki. Fáviska þeirra sem enn eru í myrkrinu er ekki þeim sjálfum að kenna heldur frekar ykkur sem þekkið ljósið en segið ekki fjöldanum frá. Hvað veldur feluleiknum? Fjársjóðurinn er falinn í hjörtum hvers og eins ykkar. Lykilinn er að finna í gjörðum ykkar og hugsunum. Hver og einn þarf, eða réttara sagt verður, að gefa sér tíma á hverjum degi til að hlusta á þögnina og þá mun hjarta hans opnast smátt og smátt. Leiðin að velferð manna er í gegnum hjartað. Hugsanir um allt og ekkert koma að litlu gagni. Sleppið taki af sífelldum hugsunum og æfið ykkur í að vera, finna. Þið hafið himnaríki í fangi ykkar en samt sjáið þið ekki fegurðina, friðinn og mikilfengleikann.