Hverjir eru englar?
Englar Guðs eru starfandi alla daga og allar nætur. Englar eru af ólíkum gerðum. Erkienglar eru þeir stærstu og máttugustu. Þeir eru sendiboðar Guðs. Þeir hafa ólíkum hlutverkum að gegna. Eiginleikar þeirra fara eftir því hverju þarf að áorka.
Mikael er þeirra fremstur, skærblátt ljós fylgir honum. Hann er engill verndar og ákveðni. Kallaðu til hans þegar þú þarft að fá aukinn kraft, meira hugrekki og vernd frá illum öflum og óþægilegri orku.
Rafael er engill heilunnar, honum fylgir grænt ljós. Rafael er með milda heilunar orku og hjálpar sjúkum og farlama. Kallaðu tl Rafaels þegar þú þarft aukinn þrótt í veikindum, þegar þú vilt senda sjúkum heilunarljós og aukna orku.
Jófíel er með gult ljós og ber með sér mikla gleði, kátínu og fögnuð. Jófíel er með fíngerða mjúka orku sem hentar vel börnum og í aðstæðum þar sem fólk kemur saman til að gleðjast.
Zadkíel er með ljósfjólublátt (violet) ljós. Honum fylgir mikill kraftur sem hægt er að kalla til þegar þarf að leysa ágreining og leysa úr flóknum verkefnum sem þarfnast farsælla lausna og fyrirgefningar í kjölfarið.
Gabríel er með hvítt ljós, honum fylgir mikil bænarorka, sátt og sæla. Kallaðu til Gabríels þegar þú þarft að finna fyrir umvefjandi blíðu í aðstæðum sem þér finnst vera óyfirstíganlegar og þér finnst þú geta illa höndlað sjálf/ur.
Úríel er engill visku. Honum fylgir fjólublátt (purple) með gylltum flekkum. Kallaðu til Úríel þegar þú vilt fá aukið þor til að segja þína skoðun, fylgja betur innsæi þínu og vera trú/r sannleikanum.
Samúel er engill fegurðar og kærleikans. Samúel er með mildan rauðbleikan lit. Þegar þú vilt finna fyrir ást og umhyggju gangvart sjálfum þér og öðrum getur beðið Samúel um að umvefja þig hlýju sinni.