Frelsi og friður byrjar í huganum. Til að öðlast jafnvægi, sátt og samkennd með öðrum þarftu að temja þér friðsælan huga og hlýtt hjartalag. Mörgum reynist erfitt að temja huga sinn og bregðast því oftar en ekki of fljótt við hugsunum sínum. Æfðu þig í að horfa á hugsanir þínar úr fjarlægð, gefðu þér andartak til að vega og meta hvaða hugsun þú vilt að sé í forgangi hverja stund. Slepptu taki af þeim hugsunum sem eru neikvæðar, fullar af gagnrýni og jafnvel sjálfsniðurrifi. Hlúðu að þeim hugsun sem byggja þig og samferðafólk þitt upp. Veldu vel hvað þú segir eða skrifar um annað fólk, hver og einn hefur sín verkefni að kljást við, þú þarft ekki að hafa skoðun á þeirra vegferð. Ef fólk biður þig hins vegar um aðstoð eða ráð skaltu veita þau eftir fremstu getu, mildilega til að viðkomandi fái byr undir vængi sína. Það er ósk okkar allra að hver einasta sál geti flogið hátt. Við höfum ólík hlutverk en hvert og eitt okkar er jafn mikilvægt til þess að samfélagið sé friðsamlegt og gott. Vertu öðrum stuðningur á þeirra vegferð, hlúðu að þér svo þú getir veitt öðrum stuðning sem á þurfa að halda. Finndu út hvert hlutverk þitt er, ræktaðu hæfileika þína og leyfðu öðrum að njóta þeirrar guðsblessunar sem þér hefur verið veitt. Þú ert elskað barn Guðs.