Einföld hugleiðsla

Hvíld er líkamanum nauðsynleg en einnig huganum. Gefðu þér stund á hverjum degi til að setjast eða leggjast niður og hvíla líkamann. Hugurinn gæti farið á flug en til að halda honum rólegum skaltu reyna að temja hann með því að beina huganum í ákveðinn farveg. Mörgum finnst gott að fara nokkrum sinnum með fallega setningu í hljóði, sjá fyrir sér að maður sé staddur úti í náttúrunni á gangi eða sitji á fallegum friðsælum stað. Þú getur ímyndað þér ferskan andblæ færa þér ilm blóma eða trjáa, hlustað á fugla syngja í fjarska. Sjáðu fyrir þér liti náttúrunnar, finndu friðsældina færast yfir þig um leið og þú sleppir taki af öllu áreiti, þreytu og streitu sem fylgir hversdagslífinu. Sittu eða liggðu í nokkrar mínútur og finndu hvernig orka þín breytist. Þegar þú ert tilbúin/n að fara aftur að sinna þínum daglegu venjum skaltu reyna að halda í þessa rólegu orku, friðinn og jafnvægið sem hugleiðslan færði þér.