Í hvert sinn er þú segir „ég er“ ertu í raun að segja „Guð er“. Í Biblíunni spyr Móse hvert nafn Guðs sé og honum er svarað: „Ég er sá sem ég er“. Taktu mark á þessum orðum. Ekki lítillækka sjálfa/n þig með því að tala niður til þín. Þá ertu um leið að minnka Guð innra með þér. Leyfðu þér að vera sátt/ur með þig. Vera sátt/ur með Guð innra með þér. Í þér er eilíf barátta ljóss og skugga. Lífið hefur tilhneigingu til að sækjast eftir jafnvægi, einnig innra með þér. Ef þú hefur alið um of á myrkri, neikvæðum hugsunum og dvalið lengi í vanlíðan er komjinn tími til að næra ljósið. Einfaldasta leiðin til þess er að tengjast ljósinu hvern einasta dag. Þú getur til dæmis sagt við sjálfa/n þig „ég er ljós“. Sjáðu fyrir þér ljósið í hjartastað. Í hverjum andardrætti stækkar það og breiðist rólega um allan líkamann. Ljósið getur verið í hvaða lit sem er og einnig getur því fylgt einhver tilfinning svo sem kærleikur, samkennd, vellíðan, ást eða umhyggja. Leyfðu tilfinningunni, litnum eða ljósinu að dvelja hjá þér um stund. Taktu eftir hvort þú finnur mun á líðan þinni. Taktu eftir hvort ljósið innra með þér nái að haldast bjart inn í daginn. Þér eru allir vegir færir. Guð er með þér öllum stundum, allt til enda veraldar.