Dauðinn er umbreyting

Margir óttast dauðann sem er ósköp eðlilegt. En dauðinn er óumflýjanlegur og það eina sem vitað er með vissu að muni eiga sér stað einn daginn hjá öllum jarðneskum verum. Til að eiga auðveldara með að horfast í augu við dauðann er best að hugsa um hann sem umbreytingarferli. Líkt og fiðrildi fer úr púpunni og getur flogið frjálst um með allri sinni fegurð, má líta svo á að það sama gerist þegar maður deyr. Hann verður þá frjáls undan sinni púpu, sem er líkaminn. Andinn verður þá aftur frjáls og getur flogið um. Það fylgir því ákveðin þyngsla tilfinning að vera bundinn við efnislegan líkama. Sú tilfinning hverfur við dauðann. Stundum er þessu umbreytingarferli líkt við að klæða sig úr of þröngum skóm. Léttirinn er það mikill. 

En hvað gerist eftir dauðann?

Tilvera þín eftir dauðann er háð vitundarstigi þínu og þeim þroska sem þú hefur öðlast í gegnum þær fjölmörgu jarðvistir sem þú hefur lifað. Það fer enginn á vondan stað sem hefur lifað góðu og kærleiksríku lífi. Vondi staðurinn sem margir kalla helvíti er því afsprengi af dimmum gjörðum og hugsunum manna sem hafa lifað lífi á jörðinni fullu af hatri, ofbeldi, árásum og ógnum. Hver og einn hefur möguleika á að bæta ráð sitt, bæði á jörðu og einnig þegar viðkomandi kemur yfir í handanheima. Um leið og þú áttar þig á að umbreytingin hefur átt sér stað færðu að sjá líf þitt eins og þú sért að horfa á kvikmynd. Hvert smáatriði varpast upp á tjaldið og þú vegur og metur hvað þú gerðir vel og hvað þú gerðir ekki af kærleika, ást og umhyggju. Þú dæmir því sjálfa/n þig fyrst og fremst sjálf/ur en við umbreytingarferlið færðu skilning og visku til að greina vel á milli hvað var gott og hvað var slæmt. Það er ekkert að óttast svo lengi sem þú hefur lifað ástríku gefandi lífi. Tilgangur lífsins er umfram allt að breiða út kærleika meðal manna og þau verkefni sem hver og einn fær hafa þann megin boðskap að fela í sér lausnir sem hægt er að leysa með kærleika að vopni. 

Dauðinn getur líka birst þó líkamlegur dauði eigi sér ekki stað. Sá dauði er þegar einum þroskahring lýkur og annar tekur við. Líkt og einni hurð sé lokað og annarri hrundið upp. Allar umbreytingar má því líta á sem dauða og slíkar umbreytingar leiða alltaf eitthvað gott af sér svo lengi sem viðkomandi er baðaður í ljósi Guðs og leyfir ást sinni og væntumþykju til náungans að ráða för. 

Miðlun 27. 10. 21