Hugleiðsla

Hugleiðsla er aðferð til að róa hugann í þeim tilgangi að vita betur hver maður er, hvaðan maður kemur og hver tilgangur lífsins er.

Sagt er að hægt sé að hugleiða á eins marga vegu og mennirnir eru margir. Allar eiga hugleiðslur það þó sameiginlegt að þær eru aðferðir til að leiða hugann í ákveðna átt. Ein helsta áskorun við hugleiðsluiðkun er að æfa sig í að láta ekki hugsanir trufla iðkunina. Mikill misskilningur er að tilgangur hugleiðslu sé að tæma hugann eða að ná fullkominni stjórn á honum. Það er hlutverk hugans að hugsa, rétt eins og hlutverk hjarta er að slá og því getum við aldrei hætt að hugsa. Markmið hugleiðsluiðkunar er að þjálfa sig í að láta ekki þær hugsanir sem eru á sveimi það skiptið ná yfirhöndinni.

Ýmsar hugleiðslu aðferðir eru þekktar og má þar helst nefna að fara með möntru eða bæn aftur og aftur í huganum eða í hálfum hljóðum til að sefa hugann. Margir eiga auðveldast með að fylgja svokölluðum hugleiðslusögum en þá er hlustað á lesna sögu sem leiðir hlustandann á fallegan stað þar sem hann upplifir til dæmis kyrrð og ró, þakklæti og fegurð. Oft er mælt með að hugleiða með því að horfa með hálflokuð augun á ákveðinn hlut eða mynd og reyna að bægja frá þeim hugsunum sem koma upp.

Það sem er sammerkt með flestum hugleiðsluleiðum er að andardrátturinn er notaður sem haldreipi. Þegar iðkandinn finnur að hann lætur hugsanir sínar trufla þá einbeitir hann sér markvisst að eigin andardrætti og róar þannig hugann.

Hrafnhildur Sigurðardóttir

Fyrirlestrar, námskeið, lífstílsráðgjöf, sálgæsla, heilun, dáleiðsla, tarotlestur og fyrirbænir

Hafðu samband