Þetta er bókin sem breytti hugsanagangi mínum. Ég las bókina Skyndibiti fyrir sálina þegar ég lá á fæðingardeildinni eftir að hafa eignast eldri dóttur mína, þriðja barnið. Ég var ákveðin að nýta fæðingarorlofið í að finna betur út hvað ég vildi starfa við og gera með menntun mína.

Bókin er um mátt hugans og þar er að finna góðar aðferðir til að ná betri tökum á lífinu. Eftir lestur bókarinnar fann ég betur út hver ég er og hvað ég vildi gera við líf mitt og tilveru.

Ég notaði fæðingarorlofið m.a. í að hanna tónlistarnámskeið fyrir börn og foreldra þeirra og bauð í fyrsta skipti upp á námskeiðið Með á nótunum í bílskúrnum heima hjá mér haustið 2005. Það haust hlaut ég einnig kennaramenntun í Stott pilates og í kjölfarið bauð ég upp á pílatesnámskeið í bílskúrnum heima hjá mér. Síðan þá hef ég verið sjálfstætt starfandi og boðið upp á ýmis námskeið sem miða öll að því að hvetja til gæðastunda, jákvæðrar hugsunar og byggja upp jákvæða sjálfsmynd.