Hugmyndin að bókinni Siggi og Sigrún slaka á kom til mín í hugleiðslu haustið 2015. Þá sá ég fyrir mér strák slaka á í ólíkum aðstæðum og mér datt strax í hug að þetta gæti verið Siggi sem væri að slaka á en pabbi minn heitir Sigurður og er kallaður Siggi. Þegar ég nefndi hugmyndina við bókaútgefandann spurði hann mig hvort stelpur ættu ekki líka að slaka á og þá bætti ég Sigrúnu við en mamma mín heitir Sigrún. Bókin kom síðan út hjá NB-forlagi árið 2016 en sonur minn, Kári Þór Arnarsson myndskreytti bókina.
Siggi og Sigrún slaka á er ætluð leikskólabörnum en með hjálp Sigga og Sigrúnar geta börn lært að slaka vel á líkamanum og róa hugann á einfaldan hátt. Myndirnar og textinn í bókinni auðvelda börnum að komast í rétt hugarástand til að slaka á sem er gott veganesti fyrir framtíðina. Bókin er upplögð fyrir foreldra og aðra þá sem annast uppeldi barna og vilja hjálpa börnum að ná tökum á slökun og öðlast hugarró.