Þegar þú vilt fylla líf þitt af orku og gleði skaltu standa úti í guðsgrænni náttúrunni og teygja hendur í átt að himni. Opnaðu faðminn, teygðu fingur upp til himins og andaðu að þér orku himins. Leiddu hugann að neðrihluta líkama þíns og finndu hvernig þú stendur stöðugum fótum á jörðinni. Finndu fyrir mætti jarðar, hvernig hún tengist þér í gegnum iljar þínar og líkama. Sjáðu fyrir þér að þú dragir orku jarðar upp í gegnum líkamann og finndu kraftinn sem því fylgir. Leyfðu orkunni að fylla líkamann alveg upp í hvirfil og fram í fingurgóma sem teygja sig enn hærra upp til himins. Í hverjum andardrætti fyllistu meiri og meiri orku. Leyfðu síðan guðsorkunni að fylla þig frá hvirfli niður að hjarta og þaðan út eftir handleggjunum og fram í fingur. Finndu hvernig Móðir jörð og himnestur faðir sameinast í þér, sköpun Guðs og Jarðar. Þú hugleiðir hvernig efni og andi sameinast í þér og fyllir um leið hjarta þitt af kærleika, þakklæti og von. Síðan slakarðu höndunum niður með síðu og andar djúpt. Þegar þú hittir einhvern í dag skaltu sýna þeim einstaklingi ást og umhyggju í gegnum hendur þínar, með hlýrri snertingu eða faðmlagi. Orð þín bera merki um þann kærleika sem þú berð með þér og því skaltu ávallt vera meðvituð/meðvitaður um hvernig þú tjáir þig.