Fyrirgefning

Fyrirgefningin er máttugasta leiðin til að öðlast betra líf. Að fyrirgefa bæði þér og öðrum veitir þér frelsi frá fortíðinni. Það sem var gert á þinn hlut eða þú gerðir öðrum er ekki til eftirbreytni en fyrirgefningin felst í að sleppa taki, ákveða að láta ekki atburðinn íþyngja þér meir og velja uppbyggilegri og fallegri samskipti í framtíðinni. Jesús Kristur kenndi okkur að veita fyrirgefningunni rými í lífinu. Hann bað okkur um að fyrirgefa svo við getum fengið sálarfrið til að vaxa og verða það ljós sem okkur er ætlað að verða. Að fyrirgefa ekki, er líkt og að burðast með þunga steina, steina sem draga úr getu þinni til að hefja þig til flugs. Þú átt skilið að búa til rými í hjarta þínu til að taka á móti elsku og kærleika Guðs. Taktu til innra með þér, losaðu þig við óþarfa tilfinningar sem kalla fram óþægilegar minningar. Í dag skaltu taka skref í átt að betri framtíð með því að sleppa taki af fortíðinni.