Jafnvægi

Til að viðhalda jafnvægi þarftu að huga vel bæði að líkamlegri og andlegri heilsu þinni. Það sem fellur undir líkamlega heilsu er hreyfing við hæfi, hollt mataræði, næg vatnsdrykkja og passlegt magn af bætiefnum. Þú þarft að finna líkamsæfingar sem henta vel þinni getu, áhugamálum og löngun því annars er hætt við að þú gefist upp. Það sem hentar þér er ekki það sama og hentar öðrum. Hvað varðar andlega heilsu þá flokkast undir hana hugsanir þínar og tilfinningalíf. Þegar hugsanir þínar eru þrúgandi og neikvæðar hefur það áhrif á tilfinningar þínar og líðan. Til að viðhalda rólegum huga þarftu að temja þér jákvætt hugarfar, iðka trú og leiðir til að tengja þig við æðri mátt. Þessar leiðir geta falist í bæn, hugleiðslu, tengingu við náttúruna, uppbyggilegu samtali við þá sem sjá lífið á svipaðan máta og þú. Þegar jafnvægi er náð máttu vel búast við því að ekki líði á löngu þar til órói fer aftur af stað því það er eðli náttúrunnar og lífsins að vera í flæði en ekki kyrrstöðu. Þess vegna er jafnvægislistin eilífur dans jákvæðra og neikvæðra áhrifa. Temdu þér að leika jafnvægilistina á hverjum degi og reyndu að taka eftir því þegar þú nærð fullkomnu jafnvægi. Njóttu þeirrar stundar því hún varir ekki lengi í senn. Þegar þú finnur að ójafnvægi er í lífi þínu þarftu að gefa þér enn meiri stund til að iðkja þitt andlega líf því það er rótin að meira jafnvægi. Dagurinn í dag er til þess fallinn að byrja að æfa sig, það er ekki eftir neinu að bíða.