Skynsemi þín varðveitir vissu um að innra með þér býr sannleikur. Sannleikur sem þú fékkst í vöggugjöf. Sannleikur um tilveru Guðs, kærleika hans og visku. Þegar þú hlustar á þína innri rödd ertu að hlusta á leiðbeiningar frá handanheimum. Leiðbeiningar frá þeim sem bera hag þinn fyrir brjósti, vilja að þér vegnir vel í lífinu og leysir allar þær þrautir sem fyrir þig eru lagðar á farsælan og þroskandi hátt. Tilgangur tilveru þinnar á jörðu er að þroska sál þína, bera sannleikanum vitni og breiða út kærleika meðal manna. Þú tekur að þér ólík hlutverk í leikriti lífsins en verður að muna að þú ert ekki þessi hlutverk. Þú ert leikarinn sem tekur þátt í ólíkum leiksenum í ólíkum leikritum. Höfundur leikverksins er Guð, leikstjórar og aðstoðarmenn eru látnir ástvinir, leiðbeinendur þínir, englar, gyðjur og meistarar. Sumir sjá þessa aðstoðarmenn og flestir geta þjálfað sig í að heyra leiðbeiningar frá þeim. Þegar þú leyfir skynsemi þinni að ráða för ertu á réttri leið. Þjáfaðu þig í að heyra leiðbeiningarnar, skynja kærleikann, nema ljósið innra með þér og innra með öðrum. Þá mun þér farnast vel í lífinu.