Viðvarandi vitund um mig, ljósið í þér, er eina leiðin til að ná að tengjast kærleiksríkum böndum við allt og alla. Ég er ljós heimsins, þér sem á mig trúið munuð upp rísa. Hvað merkja þessi orð? Ljós heimsins er Guð sem í öllum býr. Trú á Guð mun vekja alla til vitundar um mikilvægi þess að treysta framvindu lífsins, því allt er eins og það á að vera. Að rísa upp frá dauðum er líkt og að vakna eftir draumlausa nótt. Dauðinn birtist í margskonar myndum. Sá sem er lifandi dauður er sá sem lifir ekki tilgang sinn. Því er mikilvægt hverjum manni að finna köllun sína. Hver og einn hefur hlutverki að gegna í sinfóníu lífsins. Ekkert hlutverk er mikilvægara en annað því hver rödd þarf að heyrast í samhljómi við aðrar raddir, líkt og um kórsöng væri að ræða. Hver laglína skiptir máli. Þegar menn hafa náð að tengjast sálum sínum og þar með Guði verður lífið í meira jafnvægi. Menn finna meira til samkenndar með öðrum, hjálpsemi og velvild í garð annarra eykst.
Vaknið kæru vinir, tími draumlausra nátta er liðinn. Þið hafið verk að vinna því ný jörð er að fæðast.
Miðlun 25.10.21